Úkraínska karlalandsliðið í knattspyrnu mætti þýska liðinu Borussia Mönchengladbach í æfingaleik í gær sem var hluti af undirbúningi Úkraínu fyrir næsta verkefni en um leið fjáröflunarleikur fyrir úkraínsku þjóðina.

Úkraína mætir Skotlandi í næsta mánuði í undankeppni HM 2022 eftir að það þurfti að fresta leiknum í mars vegna innrásar Rússa í Úkraínu.

Lið Úkraínumanna var skipað leikmönnum úr úkraínsku deildinni en þeir fengu undanþáguheimild til að fara úr landi til að taka þátt í þessu verkefni.

Undanfarnar vikur hafa Dynamo Kiev og Shakhtar Donetsk leikið æfingaleiki við lið víðsvegar um Evrópu sem hluti af fjáröflun fyrir Úkraínu en þetta er í fyrsta skiptið sem úkraínska landsliðið tekur þátt í slíkum leik.

Von er á stærstu stjörnum liðsins, Oleksandr Zinchenko, Andriy Yarmolenko og Roman Yaremchuk á næstu vikum í aðdraganda leiksins gegn Skotlandi.