Spánn og Portúgal eru búin að semja við knattspyrnusambandið í Úkraínu um að bæta Úkraínu við umsóknina um að halda lokakeppni Heimsmeistaramóts karla árið 2030.

Þá myndi einn riðill fara fram í Úkraínu. Von er á tilkynningu um málið á morgun en greint var frá samkomulaginu í morgun

Ákvörðun verður tekin á ársþingi FIFA árið 2024 en framundan er tæplega tveggja ára umsóknarferli fyrir HM 2030 og 2034.

Búið er að staðfesta að fjórar umsóknir berist, meðal annars frá Marokkó og svo sameiginlega umsókn Portúgal, Spánar og nú Úkraínu.

Úrúgvæ, Argentína, Paragvæ og Síle munu sækjast eftir að halda mótið í sameiningu og þá berast fréttir af sameiginlegri umsókn Sádi-Arabíu, Grikklands og Egyptalands.

Þá hafa fjölmörg lönd lýst yfir áhuga án þess að senda inn umsókn.