Evrópska knattspyrnusambandið, UEFA, sendi forsvarsmönnum deildarkeppnanna og félögunum í deildinni bréf þar sem fram kemur að sambandið óskar eftir því að keppni í þeim deildum sem eru í hléi þessa stundina verði kláraðar í stað þess að leiktíðirnar séu blásnar af.

UEFA hefur liðkað fyrir því að mögulegt sé að klára deildirnarkeppirnar með því að fresta öllum landsliðsverkefnum sem voru á dagskrá í vor og sumar um óákveðinn tíma. Það sama gildir um Meistaradeild Evrópu í karla- og kvennaflokki og Evrópudeild karla.

Áður hafði verið miðað við að öllum deildarkeppnum væri lokið 30. júní næstkomandi en nú hefur sú viðmiðun breyst og hafa deildarkeppninnar svigrúm til þess að spila allt fram til loka ágústmánuðar. Mikill peningur er í húfi og myndi það þýða mikið fjárhagslegt tjón ef leiktíðunum yrði aflýst.

Mögulegt er að félög í þeim deildarkeppnum sem ekki verða kláraðar fái ekki sæti í Evrópukeppnum félagsliða á næsta keppnistímabili. Belgar ákváðu að hætta keppni í sinni deildarkeppni í gær en gætu endurskoðað afstöðu sína ákveði UEFA að félög fái ekki sæti í Evrópukeppni verði tímabilið ekki klárað.

Forráðamenn félaganna í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla hittast á fjarfundi í dag en síðast þegar félögin báru saman bækur var vilji hjá meirihluta félaganna að klára deildina. Líklegt þykir að svipað staða sé uppi á teningum á þessum tímapunkti.