Á fundi formanna og framkvæmdastjóra knattspyrnusambanda innan UEFA, þann 8. október síðastliðinn, flutti Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, erindi þar sem viðfangsefnið var fjölgun kvenna í nefndum og stjórn UEFA. Í framhaldi af erindi Vöndu hefur UEFA stofnað vinnuhóp til að skoða málefnið. Þetta kemur fram í frétt á vef KSÍ.

Vanda er sjálf hluti af vinnuhópnum sem samanstendur af þremur konum og fimm körlum.

Í 19 nefndum á vegum UEFA eru samtals 394 nefndarmenn og aðeins 52 þeirra (13%) eru konur, og þar af sitja 18 af þessum 52 í sérstakri nefnd UEFA um kvennaknattspyrnu.

Í samanburði við FIFA og Alþjóða ólympíusambandið stendur UEFA verr að vígi þegar kemur að fjölda kvenna í nefndum og stjórn. Í nefndum hjá UEFA eru 14% meðlima konur, hjá FIFA eru þær 19% og hjá Alþjóða Ólympíusambandinu er helmingur nefndarmeðlima konur. Hjá KSÍ eru 47% nefndarmeðlima konur.

KSÍ hefur með átaki náð að fjölga konum á ársþingi síðastliðin þrjú ár. Á síðasta ársþingi KSÍ sem haldið var 26. febrúar 2022 voru 20% þingfulltrúa, eða 30 af 149 þingfulltrúum, konur. Aldrei fyrr hafa jafn margar konur verið þingfulltrúar.