Evrópska knattspyrnusambandið mun funda með knattspyrnusamböndum Evrópu um næstu skref er varða EM, Meistaradeildina og Evrópudeildina vegna útbreiðslu kórónaveirunnar.

UEFA greindi frá þessu á Twitter-síðu sinni og segir að fundurinn fari fram eftir helgi. Þar stendur að farið verður yfir málefni allra deilda í Evrópu, Evrópukeppnirnar og Evrópumótið sjálft.

Spænska deildin greip til sömu ráðstafanna og ítalska deildin fyrr í dag og ákvað að fresta öllum leikjum fram í apríl í stað þess að leika fyrir luktum dyrum.

Fjölmargir leikir hafa farið fram fyrir luktum dyrum síðustu daga á meðan öðrum hefur verið frestað. Þannig neitaði Getafé að ferðast til Ítalíu og Inter var meinað að fara til Spánar í Evrópudeildinni.

Þá hefur Bosnía Hersegóvína óskað eftir því að leik liðsins gegn Norður-Írlandi í umspilinu fyrir EM verði frestað.