Evrópska knattspyrnusambandið, UEFA, hefur beðið Liverpool og Real Madrid afsökunar á framkvæmd úrslitaleiks Meistaradeildar Evrópu þar sem óspektir fyrir utan Stade de France settu strik í reikninginn, þrátt fyrir fullyrðingar franskra stjórnvalda um að stuðningsmenn Liverpool hafi farið yfir strikið.

Fresta þurfti leiknum um 36. mínútur eftir að lögregluyfirvöld í París kvörtuðu undan margmenni fyrir utan völlinn og notuðust við táragas til að reyna að halda aftur af aðdáendum.

Í yfirlýsingunni biður UEFA stuðningsmennina sem voru í Parísarborg afsökunar á því að hafa þurft að upplifa slíka óreiðu og óöryggi á kvöldi sem hafi átt að vera hápunktur ársins hjá félagsliðum í Evrópu.

UEFA var áður búið að staðfesta að rannsókn færi fram á því hvað fór úrskeiðis en Real Madrid óskaði fyrr í dag eftir því að fá svör um hvað fór úrskeiðis eftir að aðdáendur liðsins fóru að senda inn kvartanir.

Áður var Liverpool búið að skora á stuðningsmenn að senda inn kvartanir ásamt því að senda inn opinbera kvörtun.