Eftirlitsmaður UEFA, Mark Blackbourne frá Englandi, skrifaði ekkert í skýrslu sína um hegðun Þorgríms Þráinssonar, starfsmanns Knattspyrnusambands Íslands, KSÍ, eftir landsleik Íslands gegn Rúmenum fyrr í mánuðinum og mun UEFA því ekki beita sér neitt frekar í málinu. Þetta segir í svari UEFA við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Þorgrímur virti ekki tveggja metra regluna og bar ekki grímu þegar hann arkaði inn á leikvöllinn eftir sigur á Rúmenum til að knúsa mann og annan, meðal annars fyrirliða landsliðsins, Aron Einar Gunnarsson.

Hann greindist svo með COVID-19 og fóru tólf starfsmenn í kjölfarið í sóttkví, meðal annars landsliðsþjálfararnir. Þá keyrði hann landsliðsmenn í myndatöku með leyfi Víðis Reynissonar yfirlögregluþjóns.