Erik Hamrén viðurkenndi að hann væri niðurlútur að örlögin væru ekki í höndum íslenska liðsins eftir 2-0 sigur á Andorra í kvöld.

Þegar tvær umferðir eru eftir er Ísland fjórum stigum á eftir Tyrklandi fyrir heimsókn til Tyrklands í næsta mánuði.

„Við erum með fimmtán stig og endum vonandi með 21 stig í riðlakeppninni, þá munum við skoða lokastöðuna í riðlinum. Við horfum bara á einn leik í einu og þurfum að fara til Tyrklands til að vinna, svo sjáum við til eftir það.“

Tyrkir jöfnuðu á lokamínútum leiksins í kvöld sem er ekki í fyrsta sinn sem úrslitin ráðast seint hjá Tyrkjum.

„Tyrkland hefur haft heppnina með sér í riðlakeppninni, skora mörk á lokasekúndunum í leikjunum sem ráða úrslitum gegn Albaníu, Andorra og í dag. Við höfum alltaf talað um að úrslitin ráðist í nóvember þótt að ég væri sáttari að vita að við værum með örlögin í okkar höndum fyrir leikinn í Tyrklandi.“

Hamrén vildi ekki útiloka að Andorra tækist að stríða Tyrklandi.

„Það getur enn allt gerst. Ef við vinnum í Tyrklandi eigum við möguleika fyrir lokaumferðina. Við vitum að Tyrkland mætir Andorra í lokaumferðinni og Andorra nær ekki oft úrslitum en í fótbolta getur allt gerst. Andorra var nálægt því að taka stig í Tyrklandi,“ sagði Hamrén sem var ánægður með þrautseigjuna í íslenska liðinu í kvöld.

„Við vissum að Andorra myndi reyna að hægja á leiknum, það sem ég var ósáttur með var að þeir voru að vinna einvígin. Sem betur fer náðum við marki í fyrri hálfleik, við vissum að þeir myndu eiga erfitt með að skora.“