Forráðamenn samskiptamiðilsins twitter hafa boðað til fundar með forsvarsmönnum Manchester United og forkólfum Kick it out herferðarinnar, sem hefur það að markmiði að útrýma kynþáttafordómum í ensku fótboltasamfélagi.

Þar verða ræddar verða aðgerðir sem fyrrgreindir aðilar ætla að ráðast til þess að bregðast við þeim kynþáttafordómum sem Paul Pogba varð fyrir á twitter í vikunni.

Eins og áður hefur verið fjallað um spruttu stuðningsmenn Manchester United fram á twitter og gagnrýndu Pogba fyrir að hafa klúðrað vítaspyrnu í leik Manchester United og Wolves á mánudagskvöldið síðastliðið.

Pogba varð þar fyrir svæsnum kynþáttafordómum sem fyrrgreindir aðilar vilja bregðast við með einhverjum hætti.

Fram kemur í yfirlýsingu sem twitter sendi frá sér að samskiptamiðillinn ætli sér að taka málið föstum tökum og fá viðeigandi aðila með sér í það verkefni.

„Við höfum reynt að hafa umhverfið hjá okkur þannig að það byggist á samskiptum sem geti verið hreinskiptar en virðing milli aðila sem eiga í hlut verði að vera til staðar. Nú verðum við hins vegar að leggja harðar að okkur og grípa til frekari aðgerða til þess að koma í veg fyrir fordómafullar athugasemdir," segir í yfirlýsingu twitter.

„Kynþáttafordómar hafa aldrei og munu á engum tímapunkti verða liðnir á samskiptamiðlinum og við fordæmum þá af heilum huga. Hér eftir þurfum við einfaldlega að sýna það betur í verki. Liður í því er að funda með Manchester United og Kick It Out þar sem sett verður upp aðgerðarplan með það að markmiði að útrýma kynþáttafordómum í umræðum um knattspyrnu á miðlinum," segir enn fremur.

Reglur twitter um notkun notenda miðilsins fela í sér að óheimilt sé að setja inn efni sem inniheldur hvers kyns ofbeldi, hótanir í garð annarra eða einhvers konar mismunun á grundvelli skoðana, þjóðernis, kynþáttar. Þá er lagt bann við því að smána minnihlutahópa.

Síðan árið 2018 hefur tilfellum þar sem aðgangar notenda hafa verið bannaðir vegna brota á fyrirmælum um að láta af háttsemi sem brýtur í bága við fyrrgreindar reglur aukist um 45% og þá talan á þeim aðgöngum sem fjarlægðir án viðvörunar innan sólarhrings frá broti þrefaldast.

Fróðlegt verður að sjá til hvaða ráðs twitter í samstarfi við Manchester United og Kick it out hyggst grípa til í framhaldinu.