Rajon Rondo sem varð meistari með Boston Celtics árið 2008 og Los Angeles Lakers árið 2020 var dæmdur í nálgunarbann í vikunni eftir að Rondo hótaði barnsmóður sinni vopnaður byssu.

Dómari sem tók fyrir beiðnina samþykkti beiðni barnsmóðurinnar um að Rondo yrði dæmdur í nálgunarbann, hún fengi fullt forræði og að hann þyrfti að láta af hendi öll skotvopn sem hann ætti.

Fjallað er um málið á vef TMZ en hinn 36 ára gamli bakvörður lék lengst af með Boston Celtics. Udanfarin ár hefur Rondo komið víða við enda kominn á sitt sextánda tímabil í sterkustu körfuboltadeild heims, NBA-deildinni.

Barnsmóðir Rondo, Ashley Bachelor, greindi frá því að hann hefði brotið hluti og bramlað á heimili hennar eftir að hafa eytt tíma með syni þeirra og yfirgefið heimilið til að sækja skotvopn.

Þegar Rondo hafi komið aftur á heimili hennar hafi hann krafist þess að tala við börnin sín vopnaður skotvopni og hótað barnsmóður sinni.