Röa þurfti að sætta sig við tap í fyrsta heimaleik tímabilsins en Svava Rós Guðmundsdóttir skoraði bæði mörk Röa í 2-5 tapi gegn ríkjandi meisturunum í LSK.

Svava gekk til liðs við Röa frá Breiðablik í byrjun þessa árs en hún hefur byrjað báða leikina til þessa og leikið allar 90. mínúturnar.

LSK komst 3-0 yfir í fyrri hálfleik en Svava svaraði fyrir Röa með tveimur mörkum á fimm mínútna kafla en lengra komst Röa ekki. 

Sophie Haug fullkomnaði þrennu sína fyrir LSK í uppbótartíma eftir að Emilie Haavi hafði bætt við fjórða markinu á 83. mínútu.

Röa er áfram án stiga eftir tvær umferðir en næsti leikur liðsins er gegn Trondheims-Orn á útivelli að viku liðinni.