Tveir liðsmenn spænska knattspyrnuliðsins Atletico Madrid hafa greinst með kórónuveiruna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá klúbbnum.

Óvíst er hvaða áhrif smit þessi hafa á leiki Meistaradeildarinnar, sem eiga að fara fram í vikunni. Atletico Madrid á leik við RB Leipzig í átta liða úrslitum deildarinnar næsta fimmtudag. Leikurinn á að fara fram í Lissabon í Portúgal.

Fréttablaðið/Getty

Ekki er vitað hvaða leikmenn liðsins um ræðir en í tilkynningunni segir að þeir séu báðir í einangrun heima hjá sér. Leikmennirnir tveir greindust við skimun leikmanna og starfsmanna liðsins fyrir brottför þeirra til Lissabon. Leikmennirnir tveir fara aftur í sýnatöku og þeir sem hafa verið í návígi við þá síðustu daga.

„Þetta hvetur til breytinga á æfingafyrirkomulaginu, öllu í kringum ferðina [til Lissabon] og dvalarstað okkar í portúgölsku höfuðborginni,“ segir í tilkynningunni.

Meistaradeildin hóf aftur keppni síðasta föstudag eftir rúmlega fjögurra mánaða hlé vegna heimsfaraldursins. Ákveðið var að klára keppnina með átta liðum og verða ekki spilaðir tveir leikir í hverri umferð líkt og venjulega heldur dettur nú hver sem tapar einum leik úr keppni.