Tvenns konar tilvik um kynþáttafordóma komu upp á yfirborðið gagnvart leikmönnum ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla um síðustu helgi. Fyrst var tilkynnt um að 12 ára drengur hefði verið handtekinn fyrir að senda Wilfried Zaha rasísk skilaboð.

Sheffield United sendi svo frá sér yfirlýsingu í gærmorgun þar sem segir að David McGoldrick, framherji karlaliðs félagsins, hafi fengið send rasísk skilaboð.

Zaha tjáði sig um málið á samfélagsmiðlum sínum í gær þar sem hann þakkar lögreglunni fyrir skjót og fagmannleg vinnubrögð sín í málinu. Þá segir þessi 27 ára gamli leikmaður að þörf sé á alvöru aðgerðum, aukinni fræðslu og raunverulegum breytingum í baráttunni gegn kynþáttafordómum.