Danmörk lagði Ísland að velli með tveimur mörkum gegn einu þegar liðin mættust í næst síðustu umferð í riðlakeppni A-deildar Þjóðadeildarinnar í knattspyrnu karla á Parken í Kaupmannahöfn í kvöld.

Það var Christian Eriksen sem skoraði bæði mörk Dana í leiknum úr vítaspyrnum. Það fyrra kom á 12. mínútu leiksins en það víti var dæmt á Ara Frey Skúlason fyrir að brjóta á Daniel Wass.

Svo virtist sem Wass væri rangstæður í aðdraganda þess að hann fékk boltann. Þá vildu leikmenn íslenska liðsins fá dæmda aukaspyrnu þar á undan.

Eriksen var nærri því að skora sitt annað mark í leiknum í upphafi seinni hálfleiks en Rúnar Alex Rúnarsson varði skot hans frábærlega. Yussuf Poulsen kom svo boltanum í netið um miðbik síðari hálfleiks en var réttilega dæmdur rangstæður.

Viðar Örn Kjartansson sem kom inná sem varamaður þegar rúmar 20 mínútur voru eftir af leiknum jafnaði metin þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum. Ari Freyr sendi þá laglega stungusendingu inn fyrir vörn danska liðsins og Viðar Örn kláraði færið af stakri prýði.

Viðar Örn Kjartansson átti góða innkomu í leikinn en hér fagnar hann markinu sem hann skoraði.
Fréttablaðið/EPA

Þetta var fimmta landsliðsmark Viðars Arnar en hann var fyrsti leikmaðurinn til þess að skora fyrir íslenska liðið á Parken síðan Hermann Gunnarsson minnkaði muninn í sögulegum 14-2 sigri Dana árið 1967.

Eriksen tryggði svo Danmörku stigin þrjú þegar hann skoraði af feykilegu öryggi úr vítaspyrnu sem dæmd var á Hörð Björgvin Magnússon en Yussuf Poulsen skallaði boltann í höndina á Herði Björgvini.

Hörður Björgvin var áminntur með gulu spjaldi í fyrrgreindu atviki en hann verður þar af leiðandi í leikbanni þegar Ísland sækir England heim á Wembley í lokaleik riðlakeppninnar á miðvikudaginn kemur.

Lið Íslands í leiknum er þannig skipað: Rúnar Alex Rúnarsson - Ari Freyr Skúlason, Hörður Björgvin Magnússon, Hólmar Örn Eyjólfsson, Sverrir Ingi Ingason, Birkir Már Sævarsson. - Arnór Sigurðsson (Aron Einar Gunnarsson´70), Birkir Bjarnason (Guðlaugur Victor Pálsson ´46), Gylfi Þór Sigurðsson (fyrirliði). - Albert Guðmundsson (Alfreð Finnbogason ´74), Jón Daði Böðvarsson (Viðar Örn Kjartansson ´70).

Leikur Íslands á móti Englandi verður síðasti leikurinn þar sem Erik Hamrén verður við stjórnvölinn hjá íslenska liðinu en hann er að kveðja liðið eftir rúmlega tveggja ára störf.