FIFA birti á dögunum skýrslu um samkeppnishæfni deilda í knattspyrnu karla þar sem kemur fram að tæplega helmingur deilda Evrópu hafi á síðustu fimm árum prófað að nota tvískiptingu eða úrslitakeppni í deildarkeppnum sínum. Tillaga þess efnis af hálfu starfsnefndar sem KSÍ skipaði var felld á ársþingi KSÍ um helgina.

Tillaga KSÍ sem hljómaði upp á tólf liða deild sem yrði tvískipt eftir tvöfalda umferð og leikið yrði innbyrðis í þeim deildum fékk 54 prósent atkvæða þegar það þurfti tvo þriðju atkvæðanna hið minnsta.

Í skýrslunni kemur fram að 23 deildir í álfunni hafi á einhverjum tímapunkti notast við skiptingu eða úrslitakeppni að loknu hefðbundnu tímabili á síðustu fimm árum.

Markmiðið með því sé að skapa meiri spennu, fjölga leikjum milli liða á sama gæðastigi og sérstaklegar þegar kæmi að bestu liðum hvers lands. Áhrif þess að lengja mótið virðist ekki hrista mikið upp í lokaröðun deildarkeppninnar en í 89 prósentum tilfella hefur efsta liðið í lok venjulegs tímabils endað sem meistari við lok viðbótarkeppninnar.

Í 9 prósentum tilfella hefur liðið í efsta sæti þurft að sætta sig við silfurverðlaunin eftir viðbótarmótið og í 2 prósentum tilfella féll toppliðið niður í þriðja sætið. Það hefði því ekki skilað mörgum breytingum þegar kæmi að meistaratitlunum en væri tækifæri til að auka sýnileika og spennu innan deildarinnar.