Tómas Þór Þórðarson og Davíð Þór Viðarsson settust í settið í Íþróttavikunni með Benna Bó sem sýnd er á föstudögum á Hringbraut. Þar var meðal annars farið yfir lokakaflann í Bestu deild karla.

Enski boltinn fer loks aftur að rúlla um helgina eftir landsleikjahlé. Mörg lið hafa verið í lengra fríi vegna frestanna í kjölfar andláts Elísabetar Bretlandsdrottningar.

Tómas er ritstjóri enska boltans á Símanum. „Ég er fyrst og fremst glaður að komast aftur í vinnuna um helgar, maður er svo sem búinn að vera í einhverjum póstsendingum og þykjast vera að vinna.“

Það eru tveir stórleikir á dagskrá í þokkabót. Arsenal tekur á móti Tottenham í dag og á morgun er leikur Manchester United og Manchester City.

„Það er frábært að fá þessi lið á þennan stað aftur. Þegar við tókum við enska boltanum var kannski ekki allt að frétta hjá Arsenal og Tottenham,“ segir Tómas.

Benedikt Bóas velti því upp hvort City myndi valta yfir einvígi sitt gegn United.

„Ég held að ég hafi aldrei séð neitt lið í ensku úrvalsdeildinni jafngott og þeir eru. Þeir voru frábærir í fyrra og svo bættu þeir við einum ágætis leikmanni í sumar, sem menn höfðu áhyggjur af að þyrfti að aðlagast og myndi jafnvel ekki aðlagast. Annað hefur komið á daginn,“ segir Davíð um City.

Hann hrósar Pep Guardiola í hástert. „Hann er í þeirri stöðu að geta keypt sér hvaða leikmenn sem er. Samt eru leikmenn sem hann hefur fengið sem hann hefur gert að leikmönnum sem eru með þeim betri í heiminum í dag.“

Erling Braut Haaland kom til City í sumar frá Dortmund og hefur verið hreint magnaður.

„Það eru nokkrir leikmenn sem hafa átt erfitt til að byrja með, eins og Rodri, Joao Cancelo og Bernardo Silva. Það gerir það enn merkilegra hvað Haaland er búinn að vera fljótur að komast inn í hlutina,“ segir Davíð.

Sjálfur heldur Davíð með Liverpool. Hann hefur enn trú á að sínir menn rétti úr kútnum, þrátt fyrir erfiða byrjun.

„Akkúrat núna sér maður Liverpool ekkert vera í brjálaðri baráttu við Manchester City. En það má ekki gleyma að það er ekki mikið búið af þessu móti. Þú ert fljótur að koma þér upp aftur með 2-3 sigrum í röð. Þeir verða þarna uppi en mér finnst, eins og staðan er í dag, að þeir nái að berjast við City.“