Tvö kórónaveirusmit komu upp hjá ítalska félaginu Venezia í gær þar sem Óttar Magnús Karlsson og Bjarki Steinn Bjarkason leika þessa dagana.

Ítalskir fjölmiðlar greindu frá málinu í gær og segja að allir innan félagsins hafi farið í skimun í dag.

Ekki er vitað hvaða leikmenn liðsins eru smitaðir en þeir eru komnir í einangrun að sögn Venezia. Óvíst er hvort að leikur liðsins gegn Verona í bikarnum fari fram í kvöld.

Íslendingarnir tveir í herbúðum ítalska félagsins eru báðir nýbúnir að semja við félögin.

Bjarki var keyptur til Ítalíu frá ÍA undir lok ágústmánaðar og Óttar frá Víkingi mánuði síðar.

Óttar var fljótur að opna markareikning sinn en hann skoraði í öðrum leik sínum fyrir félagið frá Feneyjum.