Aga- og úrskurðarnefnd handboltasambands Íslands, HSÍ, úrskurðaði Sigurð Bragason, þjálfara kvennaliðs ÍBV, í tveggja leikja bann í gær. Sigurður sem var starfsmaður ÍBV U hlaut útilokun með skýrslu vegna grófrar óíþróttamannslegrar hegðunar í leik Fram U og ÍBV U í Grill 66-deildinni um síðustu helgi.

Samkvæmt úrskurði aga- og úrskurðarnefndarinnar mátu dómarar leiksins að brotið hafi fallið undir reglu 8:10 a) í leikreglum HSÍ. Þar kemur meðal annars fram að refsa skuli fyrir grófa óíþróttamannslega hegðun sem dómarar leiksins flokki sem móðgandi eða ógnandi hegðun sem beint er gegn öðrum aðila, svo sem dómara.

Í þessu tilviki snöggreiddist Sigurður í kjölfar ákvörðunar dómara leiksins í lok fyrri hálfleiks og kallaði annan dómara leiksins Ricardo Bernardo Machai Xavier djöfulsins apakött í reiðilestri sínum. ÍBV skilaði greinargerð í málinu þar sem komið var á framfæri athugasemdum félagsins sem og afsökunarbeiðni við dómara leiksins, vegna framgöngu þjálfarans.

Með vísan til orða þjálfarans og háttsemi hans, sem beindist að báðum dómurum leiksins, var Sigurður úrskurðaður í leikbann vegna brots sem að mati nefndarinnar er réttilega heimfært undir reglu 8:10 a). Með tilvísun í 10. gr. reglugerðar HSÍ um agamál er það niðurstaða aganefndar að þjálfarinn er úrskurðaður í tveggja leikja bann. Aganefnd vekur jafnframt athygli á stighækkandi áhrifum leikbanna, skv. 1. mgr. 11. gr. sömu reglugerðar.

Ekkert sértækt ákvæði er í reglum HSÍ sem tekur á orðum eða gjörðum sem fela í sér kynþáttafordóma.

Fyrir brot sem falla undir reglur 8:10 í leikreglum getur aganefnd úrskurðað viðkomandi í leikbann í allt að sex leiki eftir alvarleika brotanna eða tímabundið bann. Miðað við þá refsingu sem Sigurður fékk í þessu máli má álykta að aga- og úrskurðarnefnd áliti orð hans ekki fela í sér kynþáttafordóma heldur fremur sem móðgandi hegðun.

Virðist skipta máli við það mat að hann hafi beint orðum sínum að báðum dómurum leiksins að mati aga- og úrskurðarnefndarinnar en Hekla Ingunn Daðadóttir dæmdi umræddan leik með Ricardo Bernardo Machai Xavier.

Leikreglur HSÍ eru bein þýðing á reglum alþjóða handboltasambandsins, IHF, frá því árið 2016 en þar er ekki kveðið sérstaklega á um hvernig refsa skuli fyrir orð sem fela í sér kynþáttafordóma líkt og gert er í reglum alþjóða knattspyrnusambandsins, FIFA, og kemur fram í reglugerðum KSÍ.

Af þeim sökum hefðu samsvarandi reglur og agaákvæði ekki átt við í þessu máli og sambærilegum málum sem upp hafa komið í íslenskri knattspyrnu og taldar voru falla undir kynþáttafordóma hefði aga- og úrskurðarnefnd HSÍ metið að orð Sigurðar fælu í sér fordóma vegna kynþáttar dómarans.