Tveir stuðningsmenn Liverpool sem lifðu af Hillsborough slysið 1989, þar sem 97 stuðningsmenn Liverpool létu lífið, frömdu sjálfsmorð eftir að hafa að mörgu leyti endurupplifað áfallið í troðningi sem átti sér stað fyrir úrslitaleik Liverpool og Real Madrid í Meistaradeild Evrópu í maí.

Það er Liverpool Echo sem greinir frá þessu en frest þurfti leik Liverpool og Real Madrid um hálftíma vegna mikillar mannþröngar sem skapaðist fyrir utan Stade de France leikvanginn í París fyrir leik. Þúsundir stuðningsmanna Liverpool lentu þar í miklum troðningi við þröngar aðstæður og greip lögreglan í París meðal annars til þeirra ráða að beita piparúða.

Talið er að þessir tveir stuðningsmenn sem hafa framið sjálfsmorð hafi upplifað áfallið frá Hillsborough á ný í troðninginum í París og vakið upp slæmar minningar.

Peter Scarfe, fulltrúi Hillsborough Survivors Support, samtaka sem helga sér því að hjálpa eftirlifendum Hillsborough slyssins greindi frá þessum skelfilegu tíðindum á mánudaginn.

„Á þessu ári hafa þrír einstaklingar tekið líf sitt, það er þremur of mikið," sagði Scarfe í samtali við Liverpool Echo. Einn rétt áður en dagur Hillsborough slyssins rann upp fyrr á þessu ári, hann vildi ekki upplifa annan slíkan dag og svo tóku tveir líf sitt eftir að hafa endurupplifað áfallið eftir úrslitaleikinn á Stade de France.

Scarfe segir endurupplifun áfallsins frá Hillsborough skiljanlega. „Í báðum þessum dæmum var hreyfingu áhorfendaskarans hamlað með alls konar flöskuhálsum, fólki var þröngvað upp að hvort öðru í göngum, hindrað af hliðum sem meinaði þeim aðgangi að leikvanginum. Svo var þetta fólk sakað um að hafa brotið af sér í kjölfarið."