Sport

Tuttugu ár frá því Frakkar urðu heimsmeistarar

Þann 12. júlí fyrir 20 árum urðu Frakkar heimsmeistarar eftir sigur á Ronaldo og félögum hans í brasilíska landsliðinu í úrslitaleik. Franska liðið getur endurtekið leikinn frá 1998 á sunnudaginn.

Didier Deschamps lyftir heimsmeistarastyttunni eftir sigur Frakka á Brasilíumönnum í úrslitaleiknum 1998. Hann er þjálfari franska liðsins í dag. Fréttablaðið/Getty

Í dag, 12. júlí, eru 20 ár síðan Frakkar urðu heimsmeistarar í fyrsta og eina sinn eftir 3-0 sigur á Brasilíumönnum á Stade de France. Frakkland fær tækifæri til að bæta öðrum heimsmeistaratitli í safnið þegar liðið mætir Króatíu í úrslitaleik HM 2018 á sunnudaginn kemur.

Frakkar komust hvorki á HM 1990 né 1994 en mættu sterkir til leiks á heimavelli 1998. Þeir unnu alla þrjá leiki sína í riðlakeppninni með markatölunni 9-1. Í 16-liða úrslitunum tryggði Laurent Blanc Frakklandi sigur á Paragvæ með fyrsta gullmarkinu í sögu HM. 

Í 8-liða úrslitunum slógu Frakkar Ítali úr leik eftir vítaspyrnukeppni og í undanúrslitunum unnu þeir 2-1 sigur á Króötum, þökk sé tveimur mörkum frá Lillian Thuram. Það voru einu mörk hans fyrir franska landsliðið.

Zinedine Zidane skoraði tvö mörk í úrslitaleiknum 1998. Fréttablaðið/Getty

Andstæðingar Frakka í úrslitaleiknum voru ríkjandi heimsmeistarar Brassa. Aðalmaðurinn í brasilíska liðinu var undrið sjálft (O Fenômeno), Ronaldo, handhafi Gullboltans. Ronaldo skoraði fjögur mörk og lagði upp þrjú á leið Brasilíu í úrslitaleikinn.

Nokkrum klukkutímum fyrir úrslitaleikinn fékk Ronaldo einhvers konar flogakast á hóteli brasilíska liðsins. Þrátt fyrir að vera ekki á upphaflegu leikskýrslunni krafðist Ronaldo þess að spila leikinn. Hann var hins vegar skugginn af sjálfum sér og olli bestu vörn mótsins ekki miklum vandræðum. Frakkar fengu aðeins á sig tvö mörk á HM 1998 og annað þeirra kom úr vítaspyrnu.

Fabien Barthez, markvörður Frakka, og Ronaldo lentu í samstuði snemma leiks. Fréttablaðið/Getty

Frakkar voru mun sterkari aðilinn í úrslitaleiknum og sigur þeirra var sanngjarn. Zinedine Zidane kom franska liðinu yfir með skalla eftir hornspyrnu Emmanuels Petit á 27. mínútu. Í uppbótartíma fyrri hálfleiks skoraði hann nánast alveg eins mark eftir hornspyrnu frá Youri Djorkaeff.

Marcel Desailly var rekinn af velli á 68. mínútu en Brassar nýttu sér ekki liðsmuninn. Þegar þrjár mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma gulltryggði Petit sigur Frakka eftir skyndisókn og sendingu frá Patrick Viera, félaga sínum í Arsenal.

Didier Deschamps fyrirliði Frakklands lyfti svo heimsmeistarastyttunni í leikslok. Hann er þjálfari franska liðsins í dag og getur á sunnudaginn orðið sá þriðji í sögunni til að vinna HM sem leikmaður og þjálfari.

Frakkar fylgdu heimsmeistaratitlinum eftir með því að verða Evrópumeistarar tveimur árum síðar, með nánast sama lið. Þeir unnu Ítali í úrslitaleiknum í Rotterdam með silfurmarki Davids Trezeguet. Síðan hafa Frakkar ekki unnið stóran titil en sú bið gæti tekið enda í Moskvu á sunnudaginn.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Fótbolti

Mistök kostuðu Ísland sigurinn gegn spræku liði Katars

Fótbolti

Van Dijk skaut Hollandi áfram í Þjóðadeildinni

Handbolti

FH bjargaði stigi í hádramatísku jafntefli gegn Val

Auglýsing

Nýjast

Verðskuldað jafntefli í lokaleik ársins gegn Katar

Kolbeinn fagnaði byrjunarliðssætinu með marki

Kolbeinn og Eggert koma inn í liðið gegn Katar

Leik lokið: Katar - Ísland 2-2

West Ham fær leyfi til að bæta við níu þúsund sætum

Tveir leikmenn Þórs/KA æfa með Leverkusen

Auglýsing