Tumi Steinn Rúnarsson hefur skrifað undir tveggja ára samning við handknattleiksdeild Vals en hann kemur til liðsins frá Aftureldingu. Tilkynnt var um þessi vistaskipti fyrr í sumar en þau hafa nú verið skjalfest.

Tumi Steinn var partur af sigursælum 2000 árgangi í yngri flokkum Vals áður en hann gekk til liðs við Aftureldingu og er hann þar af leiðandi að koma aftur á heimahagana. Þessi tvítugi leikstjórnandi hefur verið í lykilhlutverki í yngri landsliðum Íslands undanfarin ár.

Valur varð deildarmeistari á nýafstaðinni leiktíð sem hætt var fyrr en áætlað var vegna kórónaveirufaraldursins. Íslandsmótið í handbolta karla hefst 10. september næstkomandi en Valur etur þar kappi við FH í fyrstu umferðinni.