Guðlaugur leikur með Schalke í næst efstu deild Þýskalands. Hann hafði glímt við meiðsli í aðdraganda verkefnisins og vildi þýska félagið ekki að hann myndi spila báða leikina.

Arnar Þór var nokkuð pirraður vegna málsins á sunnudag þegar hann ræddi það á fréttamannafundi. Hann skildi ákvörðun Guðlaugs en var ósammála henni.

„Ég mun ræða við alla leikmenn, ég hef það sem vinnureglu að taka ekki ákvörðun út frá tilfinningum," sagði Arnar Þór á fréttamannafundi í gær eftir að liðið vann sigur á Liechtenstein.

Fréttablaðið/Anton

Jóhann Berg Guðmundsson hafði dregið sig út úr hópnum fyrir verkefnið. Var hann tæpur vegna meiðsla en sagði frá því að hann væri ósáttur með vinnubrögð KSÍ.

„Ef ég skildi það frá Jóa rétt þá var það ekki í átt að liðinu eða hópnum. Ég tók því ekki þannig, við þurfum bara að spyrja hann að því. Til að geta gefið fullt traust, þá virkar traust og virðing í báðar áttar. Það er ekki bara hægt að gefa traust, maður þarf líka að finna að menn séu klárir í bátana.“

Arnar var beðin um að svara því hvort hann hefði ákveðið að velja Guðlaug ekki aftur. „Alls ekki, ég reyni að taka sem fæstar ákvarðanir út frá tilfinningum," sagði Arnar.

„Ég virði ákvörðun Gulla, félagið er sá aðili sem borgar honum launin. Ég skil knattspyrnuheiminn mjög vel. Við þurfum ekki alltaf að vera sammála. Þegar leikmenn eru ekki á svæðinu, þá er möguleiki fyrir aðra að stíga inn og gera vel. Við horfum á Stefán Teit Þórðarson og Þórir Jóhann sem eru að gera mjög vel. Það eru ansi margir sem hafa áhuga á að spila fyrir Ísland. Það er draumur ungra krakka. Þetta verður rætt bara, ég skil afstöðu Gulla en er ekki sammála henni. Traustið er ekki farið.“