„Það er mikið tekju­tap sem við erum að verða fyrir,“ segir Gissur Jóns­son, fram­kvæmda­stjóri Ung­menna­fé­lags Sel­foss, en hann sendi bréf til bæjar­ráðs Ár­borgar þar sem hann út­skýrði raunir fé­lagsins í CO­VID-19 far­aldrinum.

Þar kemur fram að fé­lagið óskar eftir sam­tali við bæjar­stjórn Ár­borgar um leiðir til að mæta tekju­tapi meistara­flokka fé­lagsins næstu tvö keppnis­tímabil sem er metið á um 42 milljónir króna. Hand­knatt­leiks­deildin hefur þegar orðið fyrir 13,3 milljóna króna tapi á hreinum hagnaði og til við­bótar er var­lega á­ætlað tap upp á 14-16 milljónir í fram­tíðar tapaðan hagnað, eins og það er orðað í bréfinu. Miðað við reynslu og upp­gjör síðustu ára má gera ráð fyrir að knatt­spyrnu­deildin verði af 15,1 milljón á árinu.

Sel­foss varð Ís­lands­meistari karla í hand­bolta og bikar­meistari kvenna í fót­bolta á síðasta ári. Í sumar var stefnan sett upp úr 2. deild hjá körlunum í fót­boltanum og stórir hlutir voru í pípunum hjá konunum. Hand­bolti karla­megin var í topp­bar­áttu þó að konurnar hafi átt undir högg að sækja og verið í þriðja sæti í Grill 66 deildinni. „Tekju­tap fé­lagsins er mest í handog fót­bolta. Á­ætlað núna fyrir árið er 10-15 milljónir á hvora deild og þá erum við ekki að gera ráð fyrir fram­tíðar­tekjum þar sem við í rauninni rennum blint í sjóinn. Styrktar­aðilar á næsta ári, maður veit ekki hvað gerist þar. Ferða­þjónustu­fyrir­tæki hafa verið okkur mikil­væg og þau gætu þurrkast út.“

Metnaðurinn er mikill fyrir í­þrótta­starfi á Sel­fossi og ekki er farið fram á að bærinn borgi niður ein­hverjar skuldir. Allar fjár­hæðir sem koma fram í bréfinu er hægt að sann­reyna í bók­haldi deildanna. Minnt er á hvað í­þrótta­starf gerði fyrir sam­heldni sveitar­fé­lagsins þegar bikarinn kom yfir brúna, ekki einu sinni heldur tvisvar.

„Bréfinu var vel tekið. Menn eru mjög sam­stíga hér á Sel­fossi. Við búum svo vel að muna vel eftir titlunum og hvað þeir höfðu að segja fyrir sam­fé­lagið – þessi árangur. Þetta var ekkert sem gerðist á einni nóttu og fólk í bænum og bæjar­stjórn veit það. Þetta var margra ára vinna og mönnum er um­hugað um að halda þeirri vinnu á­fram, enda hefur bæjar­stjórn brugðist vel við meðal annars með því að hækka frí­stunda­styrk til iðk­enda,“ segir hann.

Þegar Gissur er spurður hvernig hann sjái komandi tíma segir hann erfitt að spá. „Maður vonar inni­lega að þetta fari allt í gang en það er mörgum spurningum ó­svarað. Ég trúi því að við séum á réttri leið og ég er bjart­sýnn að eðlis­fari. Ef það er ekkert bak­slag þá verður tíma­bil. Ég er von­góður um það, bæði í hand- og fót­bolta.“

Gissur Jónsson, framkvæmdastjóri Ungmennafélags Selfoss.