Thomas Tuchel, þjálfari knattspyrnuliðs Chelsea, viðurkennir að hann muni ávalt eiga í nánu sambandi við framherjann Pierre-Emerick Aubameyang, sem er nú orðaður við félagið.

Tuchel og Aubameyang unnu saman hjá Borussia Dortmund á sínum tíma. Sky Sports fjallar um málið.

„Þetta er algjörlega óháð því sem er að eiga sér stað þessa stundina, en ég naut þess mjög að vinna með Auba á meðan ég var hjá Dortmund,“ er haft eftir Tuchel.

„Sumir leikmenn haldast sem þínir leikmenn vegna þess að þið eruð mjög, mjög nánir. Auba er einn þeirra,“ sagði hann.

Aubamayang hefur verið orðaður við Chelsea í sumar, en hann gekk til liðs við Barcelona í janúar frá Arsenal. Endurkoma hans til Lundúna gæti því átt sér stað, og eftir talsvert skemmri tíma en margir bjuggust við.