Þýski knattspyrnustjórinn Thomas Tuchel hefur verið rekinn frá enska úrvalsdeildarfélaginu Chelsea. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá félaginu.

Eftir að miklum fjárhæðum var eytt í nýja leikmenn í sumar hefur árangur Chelsea í upphafi tímabils verið undir væntingum. Loka naglinn í kistu Tuchel kom síðan í gær þegar liðið tapaði á útivelli gegn Dinamo Zagreb í fyrstu umferð riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu.

Chelsea er sem stendur í 6. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með tíu stig þegar sex umferðir hafa verið leiknar, fimm stigum á eftir toppliði Arsenal.

Tuchel tók við Chelsea í janúar á síðasta ári þegar félagið var undir eignarhaldi Romans Abramovich og stýrði félaginu til sigurs í Meistaradeild Evrópu á sínu fyrsta tímabili.

Síðan þá hefur félagið gengið í gegnum eigandaskipti og er nú leitt áfram af bandaríska fjárfestinum Todd Boehly.

„Fyrir hönd allra hjá Chelsea viljum við þakka Tuchel og teymi hans fyrir tíma þeirra og framlag ttil félagsins. Thomas á sérstakan stað í sögu Chelsea eftir að hafa unnið Meistaradeildina, heimsmeistarakeppni félagsliða sem og ofurbikar UEFA," segir meðal annars í tilkynningu frá Chelsea