Enskir fjölmiðlar fullyrða að Þjóðverjinn Thomas Tuchel sé búinn að samþykkja tilboð Chelsea um að taka við liðinu af Frank Lampard sem á von á uppsagnarbréfi í dag.

Tuchel er án starfs þessa dagana eftir að hafa verið sagt upp af franska stórveldinu PSG á Þorláksmessu.

Undir stjórn Tuchel vann PSG frönsku deildina tvö ár í röð og komst í úrslit Meistaradeildar Evrópu en deilur Tuchel við yfirmenn sína urðu honum að falli.

Áður en Tuchel tók við franska liðinu stýrði hann liðum Borussia Dortmund og Mainz í heimalandinu.

Lampard hefur ekki tekist að ná því besta fram úr Kai Havertz og Timo Werner sem keyptir voru til Chelsea síðasta sumar en stjórn Chelsea vonast til þess að Tuchel geti náð til landa sinna.