Hvít­rúss­neski Ólympíu­­sprett­hlauparinn Krystsina Tsi­ma­nou­ska­ya fór frá Tókýó í dag með flugi til Vínar. Tsi­ma­nou­ska­ya hefur dvalið síðustu tvær nætur í pólska sendi­ráðinu en henni var boðið pólitískt hæli í Pól­landi í kjöl­far þess að hvít­rúss­neskir em­bættis­­menn reyndu að þvinga hana um borð í flug­­vél til heima­landsins vegna deilna hennar við þjálfara sína.

Myndir sýna Tsi­ma­nou­ska­ya koma á­samt fylgdar­liði á Narita al­þjóða­flug­völlinn í Tókýó klædda í galla­buxur, bláa peysu og sól­gler­augu með orðunum „I RUN C­LEAN“ rituð á þau.

Tsi­ma­nou­ska­ya átti upp­haf­lega að fljúga beint til Var­sjár en fluginu var breytt á síðustu stundu vegna á­hyggja um öryggi hennar og friðhelgi eftir að ferða­plön hennar voru gerð opin­ber og blaða­menn höfðu bókað sæti í sama flugi.

Blaðamenn og ljósmyndarar voru viðstaddir brottför Tsi­ma­nou­ska­ya frá Tókýó.
Fréttablaðið/Getty

Höfðu áhyggjur af öryggi hennar

Að sögn pólskra heimildar­mannaa voru á­hyggjur um að hvít­rúss­nesk yfir­völd gætu gripið til svipaðra ráða eins og í maí þegar flug­vél Ry­anair var neydd til þess að lenda í Hvíta-Rúss­landi til að hand­taka blaða­manninn Roman Prota­sevich.

Tsi­ma­nou­ska­ya mun ferðast frá Vín til Var­sjár en að sögn að­stoðar­utan­ríkis­ráð­herra Pól­lands, Marcin Przydacz, nýtur hún að­stoðar utan­ríkis­þjónustu Pól­lands á ferða­laginu.

Tals­maður Narita flug­vallarins stað­festi að nær­vera blaða­manna Reu­ters í fluginu til Var­sjár væri ein á­stæða þess að ferða­á­ætlunum Tsi­ma­nou­ska­ya hefði verið breytt. Fleiri blaða­menn voru að sögn búnir að bóka sæti í fluginu með þeim á­setningi að skrá­setja komu hennar til Pól­lands.

Ólympíu­nefndin hefur hafið rann­sókn á full­yrðingar Tsi­ma­nou­ska­ya um að hún hafi verið fjar­lægð úr Ólympíu­þorpinu og henni skipað að fljúga nauðug aftur til Hvíta-Rúss­lands. Nefndin segist jafn­framt hafa fengið skýrslu frá hvít­rúss­neska liðinu í dag.