Tryggvi Hlinason lék á als oddi í 83-74 sigri Íslands á Slóvakíu í undankeppni HM 2023 í kvöld þar sem Strákarnir okkar komust aftur á beinu brautina.

Ísland nær því öðru sæti riðilsins í bili á innbyrðis viðureign gegn Slóvökum en Kósovó er í efsta sæti riðilsins eftir tvo leiki.

Næstu leikir liðsins eru í nóvember næstkomandi en um er að ræða fyrsta stig undankeppninnar.

Íslenska liðið náði snemma frumkvæðinu í kvöld og leiddi 17-14 eftir fyrsta leikhluta.

Slóvakar gáfust ekki upp og náðu að halda í við Ísland stærstan hluta hálfleiksins en undir lok fyrri náði íslenska liðið góðum kafla sem skilaði níu stiga forskoti þegar liðin gengu inn til búningsklefanna.

Eftir það voru Slóvakar alltaf að eltast við forskot Íslands en Ísland sleppti aldrei tökunum á leiknum með Tryggva fremstan í flokki.

Hann var óviðráðanlegur í teig andstæðinganna sem og teig Íslendinga og skilaði 26 stigum, 17 fráköstum og átta vörðum skotum.

Þegar líða tók á fjórða leikhluta hélt Ísland sjó og hélt góðu forskoti á Slóvakana sem gestunum tókst ekki að ógna.

Sigtryggur Arnar Björnsson skilaði sextán stigum og Kári Jónsson fimmtán en Pavel Ermolinskij var þremur stigum frá þrefaldri tvennu með sjö stig, tíu fráköst og ellefu stoðsendingar.