Bandarískir fjölmiðlar fullyrða að Marc Gasol sé búinn að semja við Barcelona í spænsku deildinni og fær Tryggvi Snær Hlinason því að kljást við einn af bestu evrópsku leikmönnum NBA-deildarinnar undanfarna áratugi.

Gasol leikur í stöðu miðherja og mun hann því berjast með kjafti og klóm gegn íslenska landsliðsmanninum undir körfunni þegar Zaragoza og Barcelona mætast í vetur ef félagsskiptin ganga í gegn.

Gasol steig fyrstu skref sín á atvinnumannaferlinum með Barcelona og Girona áður en hann hélt til Bandaríkjanna þar sem hann hefur leikið í ellefu ár. Á Spáni var hann valinn besti leikmaður deildarinnar 23 ára gamall á lokatímabili sínu hjá Girona.

Lengst af lék Marc með Memphis Grizzlies en á lokaárum ferilsins lék Spánverjinn með Toronto Raptors.

Hann var valinn varnarmaður ársins í NBA-deildinni árið 2013 og í úrvalslið ársins (e. All NBA First team) árið 2015 ásamt því að vera þrisvar valinn í stjörnuliðið.

Óvíst er hvort að bróðir Marc, Pau Gasol, fylgi Marc til Barcelona en Pau er án félags þessa dagana. Þeir fóru fyrir spænska landsliðinu á HM 2006 og á EM 2009 og 2011 þegar Spánverjar unnu til gullverðlauna.