Ís­lenska körfu­bolta­sam­fé­lagið á þrjá full­trúa í spænsku efstu deildinni í körfu­bolta karla þessa stundina. Martin Her­manns­son gekk til liðs við Valencia í sumar og Haukur Helgi Briem Páls­son samdi við Mora­Banc Andorra fyrir ný­hafið keppnis­tímabil. Þá er Tryggvi Snær Hlina­son á sinni annarri leik­tíð með Zaragoza.

Frétta­blaðið fékk Cra­ig Peder­sen, þjálfara ís­lenska karla­lands­liðsins, til þess að fara yfir stöðu mála hjá þre­menningunum sem leika í hinni gríðar­lega sterku deild.

„Hvað Martin varðar þá er mjög gaman að sjá hann fara í lið þar sem hann getur þróað feril sinn enn frekar. Martin, Haukur Helgi og Tryggvi Snær eiga það sam­eigin­legt að þeir eru viljugir til að læra af þjálfurum sínum, taka leið­beiningum hratt og vel og eru fljótir að læra nýja hluti,“ segir Cra­ig um læri­sveina sína hjá lands­liðinu.

„Tryggvi er á frábærum stað að spila í svona sterkri deild undir þjálfara sem treystir honum“ segir Cra­ig Peder­sen, þjálfara ís­lenska karla­lands­liðsins.

„Hauk Helga virðist líða mjög vel í hlut­verki sínu hjá nýja liðinu sínu. Hann er í stóru hlut­verki í sóknar­leiknum, þar sem fjöl­hæfni hans á þeim vett­vangi fær að skína. Bæði er hann að skjóta meira en hann hefur gert hjá þeim liðum sem hann hefur verið hjá upp á síð­kastið, sækja meira á körfuna og taka þátt í pick og rolli. Það er mjög mikil­vægt fyrir okkur í lands­liðinu að hann sé að sýna þessa hlið á sér með fé­lags­liðinu, þar sem við þurfum á þessu að halda í komandi verk­efni. Martin verður ekki með í næsta lands­liðs­glugga, þar sem hann verður að spila með Valencia í Euro Leagu­e á sama tíma. Haukur Helgi þarf því að vera í því hlut­verki að sækja meira á körfuna en þegar Martin er með,“ segir þjálfarinn um spila­mennsku Hauks Helga síðustu vikurnar.

„Hvað Tryggva Snæ varðar þá er auð­vitað ó­trú­legt hversu langt hann er kominn, miðað við í hversu stuttan tíma hann hefur spilað með liðum í hæsta gæða­flokki. Það sem er sér­stak­lega skemmti­legt er að sjá hversu mikið traust hann fær frá þjálfaranum. Hann er að spila rúm­lega 20 mínútur í hverjum leik og er inni á vellinum þegar mest er undir. Til dæmis í leiknum sem hann spilaði í vikunni, þá var hann hluti af leik­kerfinu sem sett var upp í síðustu sókn leiksins í jöfnum leik,“ segir hann um Bárð­dælinginn.

„Tryggvi er stöðugt að bæta sig bæði í sóknar- og varnar­leik. Hann les leikinn betur og betur á báðum endum vallarins og er að verja eða breyta skotum trekk í trekk. Þegar kemur að sóknar­leiknum þá er hann að koma sér í góðar stöður, klára færin betur og leikskilningurinn hvað leik­kerfi varðar, batnar með hverjum leiknum sem hann spilar. Fyrir mér er Tryggvi Snær á frá­bærum stað þessa stundina, að spila í svona sterkri deild undir stjórn þjálfara sem ber mikið traust til hans,“ segir Cra­ig, um stöðu mála hjá Tryggva Snæ.

Martin Hermannsson hefur haldið sama takti með stórliði Valencia, eftir vistaskipti frá Alba Berlin síðasta sumar.
Fréttablaðið/Ernir

„Það að geta leitað til leik­manns með þá eigin­leika sem Tryggvi Snær hefur, á ögur­stundu í leikjum, er gulls í­gildi fyrir ís­lenska lands­liðið. Það að hann hafi bætt því í vopna­búr sitt, að geta búið til eigin skot og verið loka­hnykkur á leik­kerfum, er mjög gott og gaman að sjá. Ég er mjög spenntur að vinna á­fram með honum og taka þátt í þroska­ferli hans sem leik­manns,“ segir Kanada­maðurinn um leik­mann sinn.

Næsti verk­efni Cra­ig og leik­manna hans hjá ís­lenska lands­liðinu er for­keppni HM 2023 sem leikin verður með ó­venju­legu sniði í þetta skiptið vegna kóróna­veirunnar. Ís­lenska liðið heldur til Bratislava í Slóvakíu í lok nóvember þar sem liðið mætir Lúxem­borg, Kós­ó­vó og Slóvakíu, dagana 23. til 29. nóvember.