Donald Trump, fyrrum Bandaríkjaforseti vill að atvinnukylfingar taki boði um að ganga til liðs við Sádi-Arabísku studdu golfmótaröðina LIV bjóðist þeim það. Hann telur að kylfingar sem þráist við og haldi tryggð við PGA-mótaröðina muni á endanum gjalda fyrir það.

Nokkrir af þekktustu kylfingum heims taka þátt í þessari nýju golfmótaröð sem er keyrð áfram á fjármagni frá Sádi-Arabíu.

Um er að ræða byltingu í golfheiminum sem er ætlað að veita PGA-mótaröðinni vissa samkeppni, um leið og það verður keppt eftir nýju fyrirkomulagi sem blandar saman liðakeppni og einstaklingskeppni.

Trump er mikill golf áhugamaður og keppt verður á velli í hans eigu, í Bedminster í New Jersey, á næsta móti LIV-mótaraðarinnar.

,,Allir þessir kylfingar sem sína hollustu við PGA-mótaröðina, sem hefur sjálf enga tengingu við hugtakið hollusta, munu á endanum gjalda fyrir það þegar að hún mun á endanum renna saman við LIV-mótaröðina," lét Trump hafa eftir sér á samfélagsmiðlinum Truth Social.

Hann segir að ef kylfingar taki ekki boðinu núna um að ganga til liðs við LIV muni þeir á endanum sitja uppi með ekki neitt.

Peningarnir tala svo sannarlega og þarf ekki nema að nefna þátttöku Phil Mickelson á mótaröðinni. Mickelson hefur um árabil verið meðal fremstu kylfinga heims og er talið að honum hafi verið borgað rúmar 200 milljónir dollara fyrir það eitt að skipta úr PGA yfir í LIV.