Andros Townsend hefur samið við enska úrvalsdeildarliðið í knattspyrnu, Everton, en hann semur við félagið til tveggja ára.

Þessi 30 ára gamli enski vængmaður kemur til Everton frá Crystal Palace en hann hefur spilað með Lundúnarfélaginu síðustu fimm árin.

Townsend er fyrsti leikmaðurinn sem Rafa Benitez fær til liðs við sig hjá Everton en hann tók við stjórnartaumunum hjá liðinu af Carlo Ancelotti í vor.

Townsend lék undir stjórn Benitez hjá Newcastle United en hann hefur einnig leikið með uppeldisfélagi sínu Tottenham Hotspur.

Everton hefur verið í kastljósi fjölmiðla síðustu dagana vegna málefna Gylfa Þórs Sigurðssonar, leikmanns liðsins.