Yaya Toure, fyrrum leikmaður Manchester City, sakaði knattspyrnustjóra liðsins um að vera á móti þeldökkum leikmönnum í viðtali við France Football en hann fékk ekki mörg tækifæri hjá City á nýafstöðnum vetri.

Var það í annað skiptið sem hann leikur undir stjórn Guardiola en sá spænski samþykkti að selja hann til Englands á sínum tíma frá Barcelona.

Toure kom lítið við sögu á tímabilinu en hann verður samningslaus á næstu vikum eftir átta ár í herbúðum Manchester City. Hann segir að fordómar Guardiola hafi bolað honum út um dyrnar og að Guardiola hafi verið ákveðinn að hefna sín á Toure.

„Hann segist ekki vera á móti þeldökkum leikmönnum en staðreyndin er sú að hann er alltaf á móti afrískum leikmönnum, hvert sem hann fer. Hann lét Wilfried Bony strax fara sem var keyptur ári áður á fúlgur fjár undir eins, þá fór mann að gruna ýmislegt,“ sagði Toure og hélt áfram:

„Hann vildi ná sér niður á mér, öfundaði mig og tók mig sem andstæðing sem hann vildi niðurlægja. Ég vildi eiga lokatímabil eins og Buffon og Iniesta en hann kom í veg fyrir það. “