Miðjumaðurinn Yaya Toure sendir fyrrum knattspyrnustjóra sínum, Pep Guardiola, kaldar kveðjur í viðtali við France Football sem birtist á morgun.

Toure fékk takmarkaðan spilatíma á nýafstöðnu tímabili en það er í annað skiptið sem Guardiola kýs ekki að nota Toure. Seldi hann Fílbeinsstrendinginn á sínum tíma frá Barcelona til Manchester City.

Segir Toure að það sé engin tilviljun og sakar Guardiola um öfundssýki, einelti og fordóma gegn þeldökkum leikmönnum.

„Hann segist ekki vera á móti svörtum leikmönnum en hann á alltaf í útistöðum við afríska leikmenn, sama hvar hann er. Hann losaði sig strax við Wilfried Bony, ári eftir að hann var keyptur fyrir fúlgur fjár, það opnaði augun mín,“ sagði Toure og bætti við:

„Ég velti fyrir mér hvort að húðlitur minn hafi komið í veg fyrir að ég fengi að spila. Ég var að spila undir stjórn manns sem vildi hefna sín á mér, hann var öfundssjúkur og horfði á mig sem adnstæðing. Mér leið niðurlægðum.“

Það skal þó benda á að Bony var búinn að vera í átján mánuði hjá Manchester City þegar Guardiola tók við liðinu og þótti aldrei standa undir væntingum. Hefur hann skorað tíu mörk í síðustu sextíu leikjum í efstu deild.

Toure var ósáttur að fá ekki að kveðja félagið fyrr en í seinasta heimaleiknum.

„Hann eyðilaggði kveðjutímabil mitt hjá félaginu, hann kom í veg fyrir að ég fengi að kveðja félagið eins og Iniesta og Bufon fengu að gera. Hann gerði allt til að eyðileggja síðasta tímabil mitt hjá félaginu.“