Þrír leikmenn karlaliðs Tottenham Hotspur í knattspyrnu sáust æfa saman í för með José Mourinho knattspyrnustjóra liðsins í almenningsgarði í London í vikunni.

Myndir birtust af Mourinho með Tanguy Ndombele, Davinson Sanchez og Ryan Sessegnon sem voru að í Hadley Common-garðinum á samfélagsmiðlum í gær.

Félagið hefur áminnt leikmenn liðsins og stjóra liðsins að virða útgöngubannið sem bresk stjórnvöld hafa sett á vegna kórónaveirufaraldursins.

Bretum er óheimilt að fara út fyrir heimili sín nema til þess að fara í matvöruverslanir, til þess að leita sér heilbrigiðisþjónustu eða til vinnu sé það ekki mögulegt að sinna starfinu að heiman.

Þá er heimilt að fara í göngutúr einu sinni á dag sé þess gætt að halda tveggja metra fjarlægð frá öðrum en heimilisfólki sínu.

Á fyrrgreindum myndum virðast leikmennirnir passa upp á að halda tilhlýðilegri fjarlægð frá hvor öðrum og Mourinho gefur skipanir úr fjarlægð.