José Mourinho, knattspyrnustjóri Tottenham Hotspur, greindi frá því á blaðamannafundir eftir sigur liðsins gegn Shkendija í Norður-Makedóníu í Evrópudeildinni í gærkvöldi að félagið hafi þurft að biðja eftirlitsmann evrópska knattspyrnusambandsins, UEFA, að hækka slána á mörkum á Tose Proeski-leikvanginum í Skopje fyrir leikinn.

Mourinho sagði að markmenn Tottenham Hotspur hafi tekið eftir því í undirbúningi fyrir leikinn að mörkin væru of lág en þessu var kippt í liðinn í tæka tíð.

Forráðamenn Tottenham Hotspur gruna ekki kollega sína hjá Shkendija um græsku þar sem leikvangurinn er ekki þeirra heimavöllur fyrir utan Evrópuleikina.

„Það voru fyndnar aðstæður sem sköpust fyrir leikinn þegar markverðirnir bentu mér á að mörkin væru of lág. Markverðir verja klukkutímum fyrir framan mörk í æfingum og leikjum þannig að þeir finna strax ef eitthvað er ekki eins og það á að vera," sagði Mourinho eftir 3-1 sigur Tottenham Hotspur þar sem Son Heung-Min og Harry Kane skoruðu mörk liðsins.

„Þó svo að ég sé ekki markvörður þá hef ég verið lengi í bransanum og ég sá það sjálfur að þetta var eitthvað skrýtið. Eftirlitsmaður UEFA kippti þessu í liðinn þannig að þetta var allt í góðu," sagði Portúgalinn enn fremur.

Tottenham Hotspur mætir svo ísraelska liðinu Maccabi Haifa í þriðju umferð undankeppninnar.