Evrópska knattspyrnusambandið, UEFA, dæmdi í dag Rennes sigur gegn Tottenham í Sambandsdeild Evrópu eftir að fresta þurfti leik liðanna á dögunum vegna kórónaveirusmita í herbúðum Tottenham.

Í regluverki UEFA kemur fram að leikurinn þurfti að fara fram á þessu ári og gefst ekki tími til að finna nýja dagsetningu.

Með því er ljóst að Tottenham er úr leik í Sambandsdeild Evrópu þetta árið. Tottenham vann tvo leiki af fimm sem fóru fram.

Tottenham lék í gær fyrsta leik sinn í tæpar tvær vikur vegna kórónaveirusmita en búið er að fresta tveimur deildarleikjum hjá Spurs vegna smitanna.