Toto Wolff, liðsstjóri Formúlu 1 liðs Mercedes óttast að ökumenn gætu látist ef hálfvitar halda áfram að kasta blysum inn á kappakstursbrautir. Blysi var kastað inn á Zandvoort kappakstursbrautina um síðastliðna helgi á meðan kappakstur í Formúlu 1 fór þar fram.

Samskonar atvik átti sér stað í tímatökum á laugardeginum en áhorfendamet var slegið á Zandvoort brautinni um helgina enda stemmningin fyrir Formúlu 1 þar í landi með eindæmum mikil sökum þess að ríkjand heimsmeistarinn í mótaröðinni, Max Verstappen er frá Hollandi.

Einn hefur verið handtekinn í tenglum við atvik þar sem blysi var kastað inn á Zandvoort brautina en skipuleggjendur keppninnar hafa heitið því að rannsaka málið í þaula. Toto Wolff er skiljanlega ekki hrifinn af þessu athæfi.

„Því miður eru margir hálfvitar á meðal okkar sem hugsa ekki út í það hvaða afleiðingar það getur haft í för með sér að kasta blysi inn á kappakstursbraut. Ef eitt slíkt hæfir þig gæti það haft banvæn áhrif."

Max Verstappen, ríkjandi heimsmeistari í Formúlu 1 og ökumaður Red Bull Racing reyndi einnig að beita áhrifum sínum í þessum efnum. „Ekki kasta blysum, það er heimskulegt."

Fjallað var um blys á fundi ökumanna með keppnisstjórn á föstudagskvöldinu í upphafi keppnishelgarinnar. Nokkrir ökumenn lýstu yfir áhyggjum sínum yfir blysnotkun hollenskra kappakstursáhugafólks en appelsínugul þoka sem stafaði út frá blysum skerti skyggni þeirra í upphafi hollenska kappakstursins í fyrra.