Fyrsta mark Cenk Tosun á tímabilinu kom í veg fyrir sigur Tottenham þegar Everton og Spurs skildu jöfn 1-1 á Goodison Park í dag.

Liðin hafa átt erfitt uppdráttar undanfarnar vikur og gerir stigið lítið fyrir liðin tvö þótt að Tottenham sé eflaust ánægð eftir að hafa misst Son Heung-Min af velli með rautt spjald.

Dele Alli kom Tottenham yfir eftir góðan undirbúning Son um miðbik seinni hálfleiks eftir markalausan fyrri hálfleik.

Suður-Kóreumaðurinn var rekinn af velli fyrir skelfilega tæklingu á Andre Gomes sem var borinn af velli tíu mínútum fyrir leikslok og kom Gylfi Þór Sigurðsson inn fyrir Gomes.

Tólf mínútum var bætt við seinni hálfleik og í uppbótartíma tókst Cenk Tosun að jafna metin með góðum skalla en lengra komst Everton ekki.