Ísland hefur haft betur í fyrstu tveimur leikjum sínum í riðlakeppni Evrópumóts karla í handbolta en íslenska liðið þurfti að hafa mikið fyrir því að landa 29-28 sigri þegar liðið mætti Erlingi Richardssyni og lærisveinum hans hjá Hollandi í leik liðanna í Búdapest í kvöld.

Liðin skiptust á að hafa forystuna í fyrri hálfleik þar sem jafnt var á öllum tölum. Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði síðasta mark fyrri hálfleiksins og sá til þess að Ísland fór með tveggja marka forskot, 15-13, inn í hálfleikinn.

Leikmenn íslenska liðsins áttu í erfiðleikum með hraðan sóknarleik hollenska liðsins í kvöld, bæði i uppstilltum leik og þegar Hollendingar tóku hraða miðju.

Guðmundur Þórður Guðmundsson um að eitthvað í leik íslenska liðsins hafi glatt auga hans.

Um miðjan seinni hálfleik var Ísland 24-20 yfir og staðan afar vænleg. Holland skorði þá fjögur mörk í röð og lokakaflinn var þar af leiðandi spennuþrunginn. Íslensku strákarnir fóru meðal annars illa af ráði sínu þegar þeir voru tveimur leikmönnum fleiri á þeim slæma kafla.

Sóknarleikurinn sem hafði verið fínn framan af leik hjá Íslandi hikstaði töluvert og sjö mínútur liðu þar til Aron Pálmarsson hjó á hnútinn með því að koma íslenska liðinu í 25-24.

Þegar um það bil fimm mínútur voru eftir af leiknum varði Björgvin Páll Gústavsson gríðarlega mikilvægt skot í stöðunni 27-26 og Sigvaldi Björn skoraði í kjölfarið sirkusmark hinum megin á vellinum.

Janus Daði Smárason átti einkar góða innkomu á síðustu 10 mínútum leiksins en þar kom hann að fjórum mörkum íslenska liðsins. Með tilkomu Janusar Daða fannst lausn á 5-1 vörn hollenska liðsins sem hafði verið íslenska liðinu erfið.

Að lokum sigraði Ísland með minnsta mun og hefur þar af leiðandi fjögur stig á toppi riðilsins en Ungverjand hefur tvö stig eftir dramatískan sigur í leik liðsins gegn Portúgal fyrr í dag.

Gísli Þorgeir var líkt og í sigrinum á móti Portúgal áræðinn í sóknaraðgerðum sínum og góður að vinna stöðuna einn á móti einum.

Ómar Ingi Magnússon mataði Sigvalda Björn með frábærum stoðsendingum í þessum leik en Ómar Ingi gaf flestar stoðsendingar hjá íslenska liðinu, sex talsins. Aron kom næstur á þeim lista með fjórar stoðsendingar. Auk þess að þefa upp samherja sína skoraði Ómar Ingi úr öllum fjórum skotunum sem hann tók.

Kallað hefur verið eftir að því að Ómar Ingi fái aukna ábyrgð og axli hana með landsliðinu og það er hann svo sannarlega gera það sem af er móti hið minnsta. Vonandi að áframhald verði á því hjá Íþróttamanni ársins 2021.

Gísli Þorgeir Kristjánsson sem var góður í fyrri hálfleik gaf þrjár stoðsendingar líkt og Janus Daði og Viggó Kristjánsson.

Mörk Íslands í leiknum: Sigvaldi Björn Guðjónsson 8, Aron Pálmarsson 6, Gísli Þorgeir Kristjánsson 4, Ómar Ingi Magnússon 4, Elliði Snær Viðarsson 2, Viggó Kristjánsson 2, Bjarki Már Elísson 1, Elvar Örn Jónsson 1 og Ýmir Örn Gíslason 1.

Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 9

Ungverjar verða andstæðingar Íslands í lokaumferð riðlakeppninnar en liðin leiða saman hesta sína á þriðjudaginn kemur. Tvö efstu liðin fara áfram í milliriðla keppninnar.

Viggó Kristjánsson var með fullkomna skotnýtingu í leiknum en hann nýtti bæði skotin sem hann tók.