Ísland náði í lífsnauðsynleg tvö stig þegar liðið mætti Lúxemborg í þriðju umferð í forkeppni fyrir HM 2023 í körfubolta karla en leikið var í Bratislava í Slóvakíu í gær. Fyrir fram var búist við nokkuð þægilegum sigri íslenska liðsins en Lúxemborg var án stiga eftir fyrstu tvo leiki sína í forkeppninni gegn Kósovó og Slóvakíu.

Lúxemborg hóf leikinn af miklum krafti og var fjórum stigum yfir, 38-34, eftir fyrri hálfleikinn. Skotnýting íslenska liðsins var slök framan af leik og erfiðlega gekk að finna Tryggva Snæ Hlinason undir körfunni.

Það var svo um miðbik þriðja leikhluta sem Ísland náði að snúa taflinu sér í vil. Umdeilanleg tæknivilla á Elvar Má Friðriksson hleypti illu blóði í leikmenn íslenska liðsins og náðu þeir að nýta mótlætið sér í vil í stað þess að brotna. Hörður Axel Vilhjálmsson skoraði í kjölfarið sjö stig í röð með tveimur þriggja stiga skotum og stigi af vítalínunni.

Góður kafli Íslands það sem eftir lifði þriðja leikhluta lagði svo grunninn að öruggum sigri íslenska liðsins í Slóvakíu.