Lucas Torreira skoraði eina mark leiksins í naumum sigri Arsenal á Huddersfield á sama tíma og flóðgáttir opnuðust í sigri Manchester United á Fulham.

Það tók Arsenal langan tíma að brjóta niður vel skipulagt lið Huddersfield en Torreira reyndist hetjan og skoraði í öðrum heimaleiknum í röð. Reyndist það eina mark leiksins.

Á Old Trafford skoraði Manchester United þrívegis í fyrri hálfleik í 4-1 sigri á Fulham. Romelu Lukaku skoraði fyrsta mark sitt á heimavelli síðan í mars en Ashley Young, Juan Mata og Marcus Rashford skorðu einnig fyrir heimamenn.

Íslendingaliðin Cardiff og Burnley unnu bæði mikilvæga 1-0 sigra og voru Jóhann Berg Guðmundsson og Aron Einar Gunnarsson báðir á sínum stað í byrjunarliðum liðanna.

Að lokum tókst West Ham að snúa leiknum sér í hag í 3-2 sigri á Crystal Palace á heimavelli eftir að hafa verið 0-1 undir í hálfleik.