Staðan á toppi Pepsi Max-deildar kvenna í knattspyrnu breyttist ekkert þegar tvö efstu lið deildarinnar léku leiki sína í 14. umferð deildarinnar í kvöld.

Valur sem trónir á toppi deildarinnar lagði Selfoss að velli með einu marki gegn engu á Jáverk-vellinum á Selfossi. Það var Hlín Eiríksdóttir sem skoraði sigurmark Vals eftir sendingu frá Hallberu Guðnýju Gísladóttur.

Hlín og liðsfélagi hennar Elín Metta Jensen eru nú markahæstu leikmenn deildarinnar með 13 mörk hvor.

Breiðablik lenti svo í kröppum dansi þegar liðið sótti KR heim á Meistaravelli. Guðmunda Brynja Óladóttir kom KR-ingum yfir í fyrri hálfleik. Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Berglind Björg Þorvaldsdóttir komu hins vegar Breiðabliki til bjargar í seinni hálfleik.

Valur með tveggja stiga forskot

Berglind Björg og Margrét Lára Viðarsdóttir hafa nú skorað 12 mörk í sumar og narta í hælana á Hlín og Elínu Mettu á listanum yfir markahæstu leikmenn deildarinnar.

Valur er í toppsæti deildarinnar með 40 stig og Breiðablik kemur þar á eftir með 38 stig. Selfoss er í fjórða sæti með 22 stig og KR því sjöunda með 13 stig og er þremur stigum frá fallsæti.

Valur á eftir að mæta Fylki, ÍBV , Breiðabliki og Keflavík í síðustu fjórum umferðunum en Blikar mæta aftur á móti Stjörnunni, HK/Víking, Val og Fylki.

KR mætir Keflavík í leik sem mun ráða miklu um fallbaráttu deildarinnar í næstu umferð en Keflavík situr í efra fallsætinu með 10 stig eins og sakir standa.