Nicolas Tomsick tryggði Stjörnunni langþráðan sigur þegar liðið mætti Njarðvík í fimmtu umferð Domino's-deildar karla í körfubolta í Njarðtaksgryfjunni í kvöld.

Stjarnan var sterkari aðilinn lungann úr leiknum en gestirnir úr Garðabænum voru 47-32 yfir í hálfleik og höfðu níu stiga forskot þegar um það bil þrjár mínútur voru eftir af leiknum.

Njarðvíkingar neituðu hins vegar að gefast upp og Maciek Stanislav Baginski jafnaði metin í 76-76 með þriggja stiga körfu þegar fjórar sekúndur voru eftir af leiknum.

Stjörnumenn fóru svo í lokasókn leiksins þar sem Tomsick skoraði sigurkörfuna í þann mund sem leiktíminn rann út.

Fyrir þennan leik hafði Stjarnan beðið lægri hlut í síðustu tveimur leikjum sínum í deildinni en liðið hefur nú sex stig líkt og ÍR, Valur, Haukar og Tindastóll í þriðja til sjöunda sæti deildarinnar.

Keflavík trónir taplaust á toppnum og KR kemur þar á eftir með átta stig. Njarðvík hefur hins vegar einungis haft betur í einum af fyrstu fimm leikjum sínum í deildinni.

Fyrr í kvöld vann Grindavík nauman 92-91 sigur þegar liðið sótti Fjölni heim. Grindavík og Þór Þorlákshöfn eru með fjögur stig í áttunda til níunda sæti.

Fjölnir er með tvö stig eins og Njarðvík en liðinu eru í tíunda til ellefta sæti fyrir ofan Þór Akureyri sem vermir botnsætið án stiga.