Knattspyrnudómarinn Tómas Meyer rotaðist á dögunum í leik sem hann dæmdi í 3. deild karla á vegum KSÍ. Í útvarpsþætti Fótbolti.net í gær sagði Tómas frá því hvernig það að hafa rotast hafi í raun bjargað lífi sínu.

Umrætt atvik átti sér stað í kringum fimmtugustu mínútu í leik Augnabliks og KH í 3. deild karla í upphafi mánaðar. Tómas Meyer, sem var dómari leiksins rotaðist þegar boltanum var spyrnt beint í höfuð hans.

,,Ég dæmi þarna aukaspyrnu í kringum fimmtugustu mínútu, bara venjulega aukaspyrna og ég dæmi hana bara og hleyp síðan aðeins frá. Næsta sem ég man eftir er bara að hafa vaknað eftir rothögg," sagði Tómas í útvarpsþætti Fótbolta.net.

Sjúkrabíll var kallaður til en leikmenn liðanna voru við það að hefja endurlífgun þegar að Tómas rankaði við sér og hóf að anda eðlilega á ný.

,,Ég átti rosalega erfitt með að ná andanum eftir að ég vaknaði, ein versta lífsreynsla sem ég hef lent í. Ég næ síðan eðlilegri öndun en er náttúrulega bara í tómu sjokki, allur blóðugur. Ég hef nú ekki séð upptöku af atvikinu en boltinn kemur væntanlega á gagnaugað á mér og ég lendi síðan á andlitinu og brjóstkassanum."

Tómas segist fyrst hafa verið leiddur inn til búningsherbergja. Þangað hafi sjúkraflutningamenn síðan komið og ákvörðun tekin um að fara með hann á sjúkrahús í tékk til þess að ganga í skugga um að allt væri í lagi.

,,Á sjúkrahúsinu kemur í ljós að ég var ekki alveg í lagi. Ég var með alltof háan blóðþrýsting."

Tómas var sendur á Landspítalann þar sem hann dvaldi í heila viku og fór í frekari rannsóknir.

,,Þá kemur í ljós að þetta er ættgengt. Núna er ég undir eftirliti og líður mjög vel. Hlakka til að takast á við það verkefni sem bíður mín núna."

Efri mörkin hjá Tómasi í blóðþrýstingsmælingunni voru 267, eitthvað sem fáir hafa heyrt um.

,,Þetta hefði geta farið svo illa. Þau á spítalanum kölluðu þetta hægfara dauða (e. slow death). Þarna fékk ég gott gult spjald sem ég tek fagnandi."

,,Þetta högg sá til þess að ég er kominn á kreik og það er verið að laga mig," sagði knattspyrnudómarinn Tómas Meyer í útvarpsþætti Fótbolta.net í gær.

Þáttinn í heild sinni ásamt viðtalinu við Tómas má hlusta á hér fyrir neðan.