Tom Brady, leikstjórnandi NFL liðs Tampa Bay Buccaneers og sjöfaldur Super Bowl meistari, er sagður vera að hætta í amerískum ruðningi. Þetta kemur fram á vef ESPN.

Brady er 44 ára og á að baki 22 ár sigursæl í bandarískum ruðningi. Var það í desember síðastliðnum sem hann upplifði sjaldgæft tap, þá á móti New Orleans Saints.

Vala Pálsdóttir, fyrrverandi íþróttafréttakona og nemi við Listaháskóla Íslands, bjó um tíma í Boston of fór af og til á leiki með Patriots þar sem Brady spilaði. Hún lýsti Brady í samtali við Fréttablaðið fyrir rúmu ári en þá komst hann í sinn tíunda leik um Ofurskálina.

„„Þetta er alveg magnað og undirstrikar að Brady er besti leikstjórnandi og leikmaður allra tíma. Hann er vel á sig kominn líkamlega og er ótrúlega sterkur andlega, leggur mikið upp úr því og krefst mikils af liðsfélögum sínum sem eflast fyrir vikið,“ sagði hún. „Það skilur hann frá öðrum og gerir hann að besta leikstjórnanda allra tíma að mínu mati.“

Uppfært 21:45

Bruce Arians, þjálfari Tampa Bay, sagði við blaðamenn í kvöld að það væri ekki orðið ljóst hvort Brady væri að hætta. Hann hafi rætt við umboðsmann Brady sem segir að leikmaðurinn sé enn að ákveða sig.