Framarar eru ekki enn öruggir með sæti sitt í Bestu deild karla en sigla nokkuð lygnan sjó þegar tvískipting deildarinnar tekur gildi.

Í lokaumferðinni áttu Framarar enn möguleika á að komast í efri hlutann en hlutskipti nýliðanna í efstu deild verður að taka þátt í neðra umspilinu eftir úrslit helgarinnar.

Aðeins eitt lið fékk á sig fleiri mörk en Fram (51) í 22 leikjum og var það ÍA (53) sem er í neðsta sæti deildarinnar þegar umspilið hefst.

Í raun er það einsdæmi að lið fái á sig fimmtíu mörk eða meira í 22 leikjum og sé ekki í fallsæti að 22 leikjum loknum frá því að fyrst var keppt í 12-liða deild á Íslandsmóti karla.

Fram að þessu höfðu sjö lið fengið á sig fimmtíu mörk eða meira í 22 leikjum og öll lið lent í 12. sæti eftir 22 leiki. Skagamenn bætast nú við þann hóp og eru því átta lið sem hafa fengið á sig fimmtíu mörk eða fleiri í 22 leikjum og verið í 12. sæti eftir 22 umferðir.

50 mörk eða fleiri fengin á sig í 22 leikjum

50 mörk - Þróttur 2016 - 12. sæti, féllu

51 mark - Fram 2022, 7. sæti, ? - Fylkir 2021, 12 sæti, féllu - Selfoss 2010, 12. sæti, féllu

52 mörk - ÍBV 2019, 12. sæti, féllu

53 mörk - ÍA 2022, 12. sæti, ?

56 mörk - ÍA 2013, 12. sæti, féllu

57 mörk - Grindavík 2012, 12. sæti, féllu

61 mark - Keflavík 2015, 12 sæti, féllu