Ef borin er saman tölfræði frá síðasta tímabili og núverandi tímabili sést bæting Max Verstappen og Red Bull Racing svart á hvítu og að sama skapi varpar hún ljósi á mun verri árangur Lewis Hamilton og Mercedes.

17 keppnum er lokið á tímabilinu. Verstappen hefur unnið átta keppnir samanborið við tvær keppnir í fyrra og Hamilton hefur unnið fimm keppnir sambanborið við ellefu keppnir í fyrra.

Sir Lewis Hamilton, ökumaður Mercedes
GettyImages

Verstappen er með forystu í stigakeppni ökumanna, hann hefur halað inn 287,5 stigum á yfirstandandi tímabili en á sama tímapunkti síðasta tímabils var hann með 214 stig, þetta er aukning um 73,5 stig milli tímabila.

Sömu sögu er ekki að segja af Lewis Hamilton. Hann er nú með 275,5 stig samanborið við 347 stig á sama tímapunkti síðasta tímabils og því sem jafngildir 71,5 stigum minna.

Max Verstappen er að bæta sig í öllum helstu tölfræðiþáttum og það endurspeglast í því að hann á í fyrsta skipti raunhæfan möguleika á að skáka Hamilton og Mercedes í baráttunni um heimsmeistaratitilinn.

GettyImages

Red Bull er með betri bíl en í fyrra, Mercedes með góðan bíl en ekki bíl sem er langtum betri en bíll helsta keppinautar síns, Red Bull.

Fimm keppnir eftir:

5-7 nóvember: Mexíkó kappaksturinn

12-14 nóvember: Brasilíu kappaksturinn

19-21 nóvember: Katar kappaksturinn

3-5 desember: Sádi Arabíu kappaksturinn

10-12 desember: Abu Dhabi kappaksturinn