Með rannsókn sinni vildi Ástrós Anna tvinna saman eitt af sínum helstu áhugamálum, fótbolta, við jafnréttismál sem eru henni ofarlega í huga dags daglega. Ástrós var í viðtali í hlaðvarpsþættinum Karlmennskan á dögunum þar sem hún talaði um rannsókn sína.

,,Ég fylgist með enska boltanum og hafði verið að velta þessu fyrir mér. Það er enginn opinberlega samkynhneigður í efstu deild hér á landi og mig langaði að skoða þetta nánar og taka viðtöl við leikmenn hér á Íslandi vegna þess að þetta er í raun og veru ekki bara vandamál hér á landi, þetta er vandamál út um allan heim.

Josh Cavallo var sá fyrsti knattspyrnumaðurinn í efstu deild síðan árið 1990 til þess að opinbera samkynhneigð sína. Justin Fashanu, fyrrverandi leikmaður Norwich var sá fyrsti til að gera það og hann varð í kjölfarið fyrir miklu aðkasti. Justin tók sitt eigið líf árið 1998 eftir stöðugt aðkast sökum kynhneigðar sinnar. Josh cavalho er sá fyrsti til að opinbera samkynhneigð sína síðan að Justin Fashanu gerði það.

Justin Fashanu
GettyImages

Í rannsókn sinni tók Ástrós viðtal við fimm knattspyrnumenn hér á landi sem hafa ýmist spilað í efstu deild eða neðri deildum Íslands. ,,Þetta eru leikmenn sem höfðu spilað fyrir mismunandi lið, verið í mörgum mismunandi klefum og búa yfir mismunandi þekkingu. Ég náði að fá fjölbreytta mynd af þessu," segir Ástrós Anna í hlaðvarpsþættinum Karlmennskan.

Knattspyrnumennirnir sem Ástrós tók viðtal við eru allir opinberlega gagnkynhneigðir á bilinu 20-30 ára. Þrír þeirra hafa spilað í efstu deild og eru með mikla reynslu á bakinu, hafa verið í fótbolta lengi.

,,Rannsóknarspurningin var breið. Mig langaði að kanna menninguna innan knattspyrnunnar og skilja hvort það væri eitthvað í henni sem gerir það að verkum að enginn komi út úr skápnum. Ef maður hugsar út í þetta út frá tölfræði gengur það ekki upp að það sé enginn leikmaður í efstu deild á heimsvísu samkynhneigður."

Ákveðnar ráðandi karlmennskuhugmyndir

Hún telur að samkynhneigðir leikmenn gætu hafa helst úr lestinni við upphaf síns ferils. ,,Ég held að margir leikmenn sem hafi verið góðir á unglingsárum hafi hugsanlega helst úr lestinni sökum þess að það eru ákveðnar karlmennskuhugmyndir innan knattspyrnunnar. Þú þarft að standa þig og samræmast ákveðinni ímynd. Ef þú ert að burðast með kynhneigð þína í hljóði getur verið erfitt að vera í þessu umhverfi og það eru dæmi um leikmenn þurftu beinlínis að hætta í fótbolta vegna þess að þeir þurftu að velja á milli þess að lifa tvöföldu lífi og vera í fótbolta eða vera þeir sjálfir. Josh Cavalho náði að gera bæði, sem er rosa stórt skref."

Hægt er að hlusta á viðtalið við Ástrósu Önnu Klemensdóttir í hlaðvarpsþættinum Karlmennskan hér fyrir neðan: