Lög­regla í Birming­ham í Eng­landi hefur hand­tekið tólf ára gamlan dreng í tengslum við rann­sókn á kyn­þátta­níð sem fram­herji Crys­tal Palace, Wil­fri­ed Zaha, varð fyrir fyrir leik liðsins gegn Aston Villa í dag.

Zaha deildi skjá­skotum af fjölda skila­boða sem send höfðu verið á Insta­gram-að­gang hans snemma í dag. „Vaknaði við þetta í dag,“ sagði Zaha og deildi myndum af skila­boðunum en ein­hver þeirra voru þá með myndum af með­limum öfga­hópsins Ku Klux Klan.

The Guar­dian segist hafa fengið þetta stað­fest, bæði hjá þjálfara Chrys­tal Palace Roy Hodg­son og stjórn­endum Aston Villa, sem sögðust vera í sam­starfi við lög­regluna við að rann­saka málið og fá þann sem sendu skila­boðin bannaða frá vellinum fyrir lífs­tíð. Síðar í dag birtist svo til­kynning frá lög­reglunni.

„Okkur barst til­kynning um röð rasískra skila­boða sem fót­bolta­maður fékk send í dag og erum að rann­saka málið. Við erum búin að hand­taka dreng,“ segir í til­kynningunni. „Drengurinn, sem er 12 ára frá Soli­hull er í okkar varð­haldi.“